Selfossdrengir taka á móti Knattspyrnufélaginu Fram fimmtudaginn 11.júní kl.19:15 á JÁVERK-vellinum á Selfossi. Verðurstofum Íslands og Noregs ber saman um að hiti verði um 9-11°C og vindur verði í lágmarki, með örlitlum möguleika á rigningu.

Selfoss gerði frækna ferð á Akureyri um síðustu helgi og kom tilbaka með eitt mikilvægt stig í pokahorninu. Var það annar leikurinn í röð sem endaði með jafntefli, en þar á undan voru tvö gríðarlega svekkjandi töp.

Knattspyrnufélagið Fram er eitt elsta íþróttafélag Íslands og þriðja sigursælasta lið efstu deildar karla í knattspyrnu með jafnmarga Íslandsmeistaratitla og ÍA, eða 18. Frá síðasta titli félagsins eru reyndar liðin 25 ár og mega Framarar muna sinn fífil fegurri. Frá 1990 hefur Fram fallið úr efstu deild þrisvar sinnum og í fimm skipti rétt sloppið við fall, oft og tíðum á ævintýralegan hátt í síðustu umferð deildarkeppninnar. Eftir fall hefur Fram þó ávallt skotist beint upp í efstu deild aftur og svo tekið 1-2 sterk tímabil í kjölfarið áður en fallbaráttan tekur við aftur.

Fram situr í 9. sæti deildarinnar, einu sæti neðar en Selfoss. Markatala þeirra er 11-11 og telja þar mest fyrstu tveir leikirnir, annars vegar 3-3 jafntefli við KA á útivelli og hins vegar 4-3 tap fyrir Þór, á útivelli einnig. Eftir fylgdi 0-1 tap gegn Fjarðarbyggð og 2-1 tap gegn Haukum, áður en þeim tókst loks að landa sigri gegn Gróttu á heimavelli 4-1. Gaman að minnast á að í þeim leik skoraði Guðmundur Marteinn Hannesson eina mark Gróttumanna.

Liðin hafa leikið 10 leiki innbyrðis í deildum og bikarkeppnum. Selfoss hefur unnið þrjá, Fram unnið sex og einn hefur verið jafntefli. Leikir síðustu ára hafa heldur fallið Selfossmegin og við vonum að það haldi áfram.

Spáum engu um byrjunarliðið. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn undanfarið en við vonum að það fari að leysast úr því og liðið geti stillt upp sínu sterkasta liði. Nú er þörf á sigri sem aldrei fyrr! Þessi leikur gæti verið vendipunktur á tímabilinu, annað hvort til að senda okkur á sigurbraut inn í efri hluta töflunnar eða til að dæma okkur í leðjuslag í neðri hlutanum.

Mætum og styðjum við bakið á okkar mönnum, kíkjum í grill fyrir leik og þjöppum í stúkuna.

Áfram Selfoss.