bikarinn yfir brúnna

 

Ekki mikið verið að gerast hérna á stuðningsmannasíðunni en nýtt ár og nýjir tímar.

Karla og kvennaliðin kepptu um helgina á Íslandsmeistaramótinu í Futsal. Strákarnir fóru í undanúrslit en töpuðu gegn Leikni/KB í fjörugum leik 9-4 en stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu Álftanes í úrslitaleik 7-4.

Þetta er fyrsti titillinn sem Ungmennafélag Selfoss vinnur í innanhúsfótbolta eftir að Futsalreglurnar voru teknar upp og góður vísir fyrir sumarið hjá Stelpunum okkar.

Leikurinn var skemmtilegur og fullt af mörkum. Við komumst yfir snemma með marki frá Ernu og svo fljótlega í 2-0 en Hrafnhildur skoraði með glæsilegu langskoti.
Álftnesingar jöfnuðu 2-2. Eva Lind kom okkur í 3-2 og Íris Sverris skoraði 4 markið og aftur kominn tveggja marka munur. Álftnesingar gáfust þó ekki upp og jöfnuðu AFTUR 4-4. Stelpurnar gáfu þá bara í aftur og Eva skoraði annað mark sitt og Erna gat ekki verið minni og skoraði sitt annað mark í leiknum. Síðasta markið var svo eign Dagnýjar sem var að spila sinn síðasta leik með Selfossi en hún átti skot/fyrirgjöf sem fór í varnarmann og inn. 7-4 og fyrsti titillinn kominn í hús.

Þessi mót svona snemma vetrar eru fyrst og fremst skemmtun og til að sjá hópinn mótast. Dagný verður ekki með í sumar og engin af erlendu leikmönnunum var með. Fróðlegt verður að sjá hvernig liðið styrkist á næstu vikum og mánuðum en því er ekki að neita að maður peppast alltaf aðeins upp við að sjá bikara koma í hús.

bikarinn