Selfyssingar heldu í gær norður yfir heiðar til að keppa við KA í knattspyrnu. Fyrir leikinn voru Akureyringar í 2. sæti með 10 stig, en Selfyssingar í því 8. með 3 stig.

Byrjunarlið Selfoss var eftirfarandi: Vignir, Jordan, Halldór, Andy, Matthew, Luca, Pavlov, Kristján, Ingþór, Einar Ottó og Magnús Ingi.

KA byrjaði leikinn betur og voru einungis tvær mínútur að koma boltanum í mark Selfyssinga. Í kjölfarið gátu þeir bætt við en vörnin hélt með Vignir í markinu. Eftir um 15 mínútna leik voru Selfyssingar komnir með ágætis tök á leiknum og byrjaðir að þjarma að Akureyringum og gerðu sig líklega til að jafna. Ingþór Björgvins og Magnús Ingi voru næst því að skora fyrir Selfoss, en ekki tókst það og staðan var 1-0 fyrir KA í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks héldu Selfyssingar boltanum betur, áttu miðjuna og stjórnuðu leiknum. Er 12 mínútur voru liðnar af hálfleiknum tók Luca aukaspyrnu sem endaði hjá Einar Ottó sem kom boltanum framhjá hinum unga Selfossættaða Fannari Hafsteinssyni og staðan orðin 1-1.

Það var svo gegn gangi leiksins sem KA komst aftur yfir 2-1. Í framhaldinu áttu Magnús Ingi og Kristján Atli báðir góð færi, en hinu megin vildu KA fá vítaspyrnu fyrir ekki neitt.

Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum tóks Selfyssingum loks að jafna og var það Hvergerðingurinn Ingþór Björgvinsson sem skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Selfoss, en þau eiga vafalaust eftir að verða fleirri. Staðan orðin 2-2 og nú galopnaðist leikurinn, því bæði lið vildu þrjú stig.

Á síðustu mínútu leiksins komu Akureyringar boltanum yfir marklínu Selfyssinga en höfðu gerst brotlegir, þannig að dómarinn dæmdi markið af. KA menn urðu æfir og dómarinn sá auðvitað þann kost vænstan að flauta leikinn af, enda erfitt fyrir Akureyringa að spila áfram í engu jafnvægi.

Lokaniðurstaðan varð því 2-2 og er rykið féll gátu sennilega bæði lið gengið sátt í burt með sitthvort stigið.
Næsti leikur Selfyssinga er gegn Fram og verður hann spilaður á JÁ vellinum á Selfossi fimmtudaginn 11. júní kl 19.15.