Við erum að fara að spila við Gróttu á Seltjarnarnesinu. Nánar tiltekið á Vivaldi vellinum.

Byrjum á veðrinu en samkvæmt veðurspám (bæði yr.no og vedur.is) eru töluverðar líkur á logni, sem er fáheyrt á þeim slóðum.

Við hverju má búast af okkar mönnum? Liðið hefur átt í erfiðleikum með sóknarleikinn, ekki skorað mikið af mörkum. Meiðsli hafa sett þar strik í reikninginn og rétta blandan hefur ekki fundist. Svekkjandi töp á heimavelli og afar erfiðar langferðir í útileiki fyrri hluta sumars hafa ekki hjálpað til. En við trúum því og treystum að allt sé þetta á uppleið og að Zoran og Jón hafi unnið vel með leikmönnum í vikunni í að bæta leik liðsins. Það býr heilmikið í liðinu, bara tímaspurnsmál hvenær það smellur saman. Góður stuðningur getur skipt sköpum í þessu, við stuðningsmenn getum verið tólfti maður liðsins. Þetta á sérstaklega við þegar illa gengur, að styðja liðið í gegnum súrt og sætt. Mæta og hvetja liðið áfram.

Þjálfara Gróttu þekkjum við vel, Gunna Guðmunds. Eftir 2 ár hér á Selfossi eigum við að vita hverju er von á frá Gunna. Vel skipulögðum varnarleik, varkárum sóknarleik og mikilli baráttu. Gróttumenn eru nýliðar í deildinni og hafa átt erfitt uppdráttar. Liðið vann þó sterkan útisigur í síðustu umferð á móti Þór Akureyri. Grótta er eitt af alltof fáum liðum fyrir neðan okkur í töflunni eins og stendur, eru næstneðstir með 4 stig.
Um leikmenn liðsins ber þar helst að nefna fyrirliðann og öðlingsdrenginn Guðmund Martein Hannesson frá Stóru-Sandvík. Hann spilaði við góðan orðstír með okkur Selfyssingum framan af sínum meistaraflokksferli, eða frá 2004-2007. Mikill keppnismaður og góður drengur.

Mætum á Seltjarnarnesið á fimmtudaginn og styðjum strákana okkar. Hvað er það sem við viljum helst sjá á fimmtudaginn? Svarið er einfalt, sigur hjá okkar mönnum. Hvernig getum við aukið líkurnar á sigri? Svarið er einfalt, mætum og styðjum liðið.