Laugardaginn 23. maí heimsótti Selfoss Víking Ólafsvík í 3. umferð 1. deildar karla. Það er skemmst frá því að segja að leikurinn fór 1-0 fyrir heimaliðið í leik sem einkenndist af miklum barningi. Í liði Selfoss voru Fúfúra, Sytnik og Þorsteinn Daníel frá og því höggvið nokkuð stórt skarð í sóknarleik liðsins. Vallaraðstæður voru erfiðar, stífur vindur beint á annað markið og völlurinn ósléttur.

Tónninn var gefinn á fyrstu mínútu þegar liðsmenn Víkinga og áhorfendur heimtuðu gult spjald á fyrsta brot Selfyssinga, gult spjald sem ekki var gefið enda átti það sér litla stoð í raunveruleikanum. Eftir það fékk dómarinn engan frið til að stjórna leiknum. Fyrir aðkomumann er sértakt að sitja í stúkunni í Ólafvík og hlusta á þjálfara, leikmenn og stóran hluta áhorfenda mótmæla öllum dómum sem ekki voru í hag heimamanna, hvort sem mótmælin áttu rétt á sér eða ekki.

En að leiknum sjálfum. Eins og fram hefur komið voru aðstæður ekki hinar bestu og vorbragur því á leiknum. Víkingar beittu mikið af háum spyrnum fram völlinn og því reyndi töluvert á varnarlínu Selfyssinga. Selfyssingar spiluðu undan vindi í fyrri hálfleik og reyndu að spila sig í gegn um mjög þéttan varnarleik heimamanna. Færin voru ekki mörg í fyrri hálfleik, en við fengum það besta undir lok hálfleiksins. Eftir góða sókn um vinstri vænginn barst boltinn út í teig hægra megin þar sem Kristján Atli var einn og óvaldaður en skot hans fór beint á markmanninn.

Seinni hálfleikur var nýbyrjaður þegar mark heimamanna kom. Boltinn barst út að hornfána, og þar var kolrangstæður Víkingur. Selfyssingar misstu sig í að biðja um rangstæðu en ekkert var dæmt. Boltinn barst út fyrir vítateig þar sem Dominguez da Silva var einn og óvaldaður, hann lét vaða á markið og boltinn steinlá  í vinstra horninu. Óverjandi fyrir Vigni.  Eftir markið var það deginum ljósarara að erfitt yrði að skora mark á Ólafsvíkinga, þeir drógu sig tilbaka og beittu skyndisóknum. Mikið var um háloftaspyrnur og því lítið markvert sem gerðist.  Þó fengum við hættulegustu færin, Svavar og Luka áttu báðir ágætis færi en náðu ekki að skora.

Miðað við allt og allt spilaði Selfossliðið alveg þokkalega, varnarlínan var nokkuð þétt og vann megnið af háloftaboltum Víkinga. Augnabliks einbeitingarleysi í upphafi seinni hálfleiks var þó dýrkeypt.  Miðja og sókn okkar var svo sannarlega vængbrotin vegna meiðsla lykilmanna. Því vantaði töluvert upp á spil og góðan sóknarleik.  Jordan Edridge spilaði einna best í liði Selfyssinga, var sterkur í vörninni og duglegur að styðja við miðju og sókn.

Næsti leikur okkar er heimaleikur föstudaginn 29. maí kl. 19:15 á móti Grindavík.  Styðjum okkar stráka, mætum á völlinn, áfram Selfoss.