Fyrsti leikur í deild búinn og hann vannst.
Búið er að fjalla mikið um leikinn m.a. hér og hér og hér eru flottar myndir sem Raggi Óla tók á leiknum.
En til að súmmera þetta upp.
Leikurinn vannst 3 – 2. Selfoss var með mikla yfirburði í fyrri hálfleik og léku við hvurn sinn fingur eins og beljurnar á vorinn. Teo opnaði markareikninginn sinn strax á 7. mínútu eftir FRÁBÆRAN undirbúning Arnórs Gauta og svo dobblaði Teo forystuna 6 mínútum seinna eða á 13. mínútu. Hæglega hefðum við getað skorað fleiri mörk í fyrri en markmaður Leiknis átti stórleik í rammanum. 2 – 0 í hálfleik og allt í góðu.
En…. Leiknismenn breyttu um taktík í hálfleik, stressið var farið úr þeim og þeir pressuðu meir. Þeir höfðu í raun tögl og haldir eftir hlé. Þeir sköpuðu þó ekki mikið en á 78. mínútu varð hálfgerður vendipunktur sem setti leikinn á haus. Þeirra sprækasti maður Kristófer Páll Viðarsson slapp allt í einu í gegn en var hundeltur af 3 Selfyssingum, sá eltingarleikur endaði með byltu rétt við vítateigsbogann og rauðu spjaldi á Sindra. Við í stúkunni voru langt því frá sammála Örvari Sæ annars ágætum dómara leiksins en hann hefur úrslitavaldið í þessu. Sindri fékk reisupassann og Fáskrúðsfirðingar aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Áður nefndur Kristófer tók spyrnuna og sýndi að hann stendur undir stóru orðunum sem hafa verið höfð um hann í vor. Hann flengdi boltanum í markmannshornið gjörsamlega óverjandi fyrir Vigni. 2 – 1 og allt í einu kominn leikur. Óneitanlega lá á okkur mönnum en við náður að breika á Leikni af og til og á 91. mínútu þá skilaði eitt breikið sér í stórglæsilegu marki Pachu og allt útlit fyrir öruggan sigur. Leiknismenn tóku þó miðju Hilmar Freyr Bjartþórsson skokkaði eina 15-20 metra með boltann og lét svo vaða óverjandi bolti og allt á suðupunkti.
Sem betur fer náðum við þó að sigla þessu heim í lokinn og fyrsti sigurinn í höfn og vonandi eini deildarleikur sumarsins á gervigrasvellinum frá.

Nokkrir áhugaverðir punktar.
* Þetta var aðeins 2 sigurleikur Selfoss í deild á gervigrasvellinum. Hin var gegn Haukum í Pepsideildinni 2010.
* Nú stefnir í að í fyrsta sinn í ansi mörg ár sé engin leikmaður með tengsl við Jón dýralækni. Elías Örn Einarsson markmannsþjálfari og allsherjar meistari er þó barnabarn Jóns og heldur tengingunni á lífi.
* Sindri og Svavar voru rosalegir á miðjunni og Pachu var flottur fyrir framan þá
* Teo kom sterkur inn og skoraði tvö mörk.
* Selfoss skoraði 3 mörk í leiknum, í fyrra tók það 4 leiki og liðið skoraði aldrei fleiri en 2 mörk í leik á síðasta ári. Raunar þarf að fara aftur til 29. ágúst 2014 til að finna leik sem Selfoss skoraði 3 mörk í en það var 3 – 1 sigurleikur gegn KV á JÁVERK-VELLINUM.
* Útlendingarnir okkar líta mjög vel út, Pachu, Teo og JC voru mjög ógnandi í sóknarleiknum og Gio stabíll í bakverðinum.
* Andy og Stebbi eru að mynda hörku miðvarðarpar og verða óárennilegir í sumar.

Það er stutt í næsta leik á þriðjudaginn verður bikarleikur á JÁVERK-Vellinum. Njarðvíkingar koma í heimsókn og hefst leikurinn klukkan 19:15.