Föstudagskvöldið 29.maí fengum við Grindvíkinga í heimsókn á JÁVERK-völlinn. Líkt og í leiknum gegn Ólafsvík voru Þorsteinn og Fufura enn tæpir og byrjuðu því báðir á bekknum. Einnig var Sytnik meiddur og því þrír gríðarlega mikilvægir leikmenn sem voru ekki klárir í leikinn. Aðstæður voru frábærar, hlýtt úti og völlurinn leit vel út.

Það tók okkur Selfyssinga ekki langann tíma að brjóta þennan margumtalaða ís þegar Maniche fékk boltann rétt fyrir utan teig Grindvíkinga, tók 2-3 snertingar, skaut boltanum með sínum frábæra hægri fæti og boltinn söng í netinu við mikinn fögnuð Selfyssinga. 1-0 eftir 1. mínútu. Frábær byrjun.

Selfyssinga spiluðu frábærann fótbolta fyrstu 20 mínútur leiksins og fengu mörg góð færi. En eftir það þá skiptu þeir niður um gír og gulklæddir stjórnuðu leiknum frá A-Ö. Grindvíkingar sköpuðu sér flottar sóknir en fundu ekki netið.

1-0 þegar Valgeir Valgeirsson, afleitur dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Grindvíkingar komu mun stemmdari inn í seinni hálfleikinn en heimamenn. Héldu áfram að opna vörn Selfyssinga en við náðum þó að koma vörnum við á ögurstundu. Þegar seinni hálfeikur var hálfnaður fengu Grindvíkingar vítaspyrnu. Andy Pew braut á leikmanni þeirra og Valgeir dæmdi vítaspyrnu. Tomislav Misura framherji Grindvíkinga fór á punktinn, sendi Vignir í vitlaust horn og skoraði örugglega. 1-1.

Eftir jöfnunarmarkið færðist mikil harka í leikinn og Valgeiri dómara skemmti sér konunglega við það að dreifa spjöldum á liðin.

Á 72. Mínútu fengu Grindavík aðra vítaspyrnu þegar Kristján Atli braut á Grindvíking. Klaufalegt brot og þetta dæmdi Valgeir rétt. Misura fór aftur á punktinn en viti menn, boltinn í slánna og Selfyssingar náðu að bæja hættunni frá.

Alveg undir lok leiksins nældi Maniche sér í sitt annað gula spjald og því í banni í næsta leik. Afar dýrkeypt.

Niðurstaðan því 1-1 í þessum bráðfjöruga leik. Næsti leikur er gegn Val á Hlíðarenda þriðjudagskvöld næstkomandi