Stelpurnar komust áfram af harðfylgi í undanúrslit í bikarnum á föstudaginn.

Leikið var í Eyjum við ÍBV og var staðan markalaus eftir 90 mínútur og því þurfti að framlengja. Eyjastúlkur fengu víti á 99 mínútu og skoruðu úr því. Var undirritaður staddur í fjölskylduboði og fylgdist með leiknum í gegnum textalýsingu mbl.is og skelltu þeir í leik lokið 1 – 0. Því fylgdi tilheyrandi bölv og ragn um að komast ekki á Laugardalsvöllinn þetta árið en viti menn. Mogginn LAUG!! á 119 mínútu skoraði Gumma úr víti sem Magdalena fékk og leikurinn því jafn og þurfti vítaspyrnukeppni til að klára.

Vítaspyrnukeppnin var æsispennandi. Guðmunda reið á vaðið en brenndi af, Chantee varði fyrstu spyrnu eyjastúlkna og Dagný braut ísinn. 1 – 0. Cloe Lacasse jafnaði úr næstu spyrnu  en Donna kom okkar stúlkum yfir um hæl. Á punktinn mætti Sigríður Lára Garðarsdóttir en skaut yfir. Magdalena var næst hjá okkur og gat komið Selfossi í kjörstöðu en skaut yfir. Hið sama gerði Díana Dögg Magnúsdóttir úr fjórðu spyrnu ÍBV og María Rós fór á puntkinn. Svellköld setti hún boltann framhjá Bryndísi í markinu hjá ÍBV og Selfoss komið í undanúrslit annað árið í röð.

Fleiri góðar fréttir af liðinu okkar.

kvennalið Ungmennafélags Selfoss er 94. besta lið í EVRÓPU! listann er hægt að sjá hér.

 
Ljúkum þessum gleðipóst á vítunum sem skorað var úr í Eyjum.

Vítin sem var skorað úr í leik ÍBV og Selfoss kvenna í borgunarbikarnum