Strákarnir okkar fóru norður yfir heiðar í dag og kepptu þar við Þór. Leikurinn var í járnum allan tímann. Þór var ívið sterkari og áttu hættulegri færi en okkar menn voru skipulagðir og áttu Þórsarar erfitt með að finna glufur á varnarmúr okkar. Nokkuð gegn gangi leiksins skoruðum við fyrsta markið. Ragnar stangaði boltann í netið eftir góða hornspyrnu og við komnir yfir á 37. mínútu. Strákarnir héldu forystu fram að hálfleik. Zoran gerði eina breytingu í hálfleik. Jordan fór útaf og Halldór kom inn.
Þórsarar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og lág mark í loftinu. Það kom á 50 mínútu. Ármann Pétur jafnaði leikinn af harðfylgi. 1 – 1 og Þór með tögl og haldir.
Leikurinn hélt áfram á sama tempói. Þór var meira með boltann og skapaði betri færi. Sigurmarkið kom svo á 76. mín. Jóhann Helgi Hannesson skoraði þá furðulegt mark sem má hugsanlega skrifa á Vigni í markinu. Síðustu 15 mínúturnar gerðist lítið hjá okkar mönnum, Þórsarar áttu hættulegri færi og hefðu léttilega getað skorað þriðja markið undir lokinn. Dómarinn kastaði til okkar smá líflínu í uppbótartíma þegar hann rak Gísla Pál Helgason útaf með sitt seinna gula spjald, að því er virtist fyrir litlar sem engar sakir, en manni fleiri síðustu 3 mínúturnar náðum við ekki að skora. 2 – 1 tap því staðreynd á Akureyri og liðið tekið 1 stig af síðustu 12 mögulegum. Næsti leikur er svo gegn toppliði Þróttar á JÁVERK-Vellinum á mánudaginn næsta klukkan 19:15.