Strákarnir okkar töpuðu fremur ósanngjarnt gegn Haukum á fimmtudaginn. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað. Stöðubarátta mestan leikinn og Haukar nýttu í raun eina alvöru færið sem þeir fengu. Strákarnir okkar fengu nokkur tækifæri á að jafna en allt kom fyrir ekki, stanslaus pressa síðustu 10 mínúturnar skiluðu ekki marki.

Rétt er að minnast á dómara leiksins Stokkseyringin Garðar Örn. Hann steig ekki feilspor í leiknum og er það þægileg upplifun eftir að hafa orðið vitni að eftirminnilegri lélegri dómgæslu í Pepsi kvenna um daginn.

Luca reynir skot í leiknum gegn Haukur

Luca reynir skot í leiknum gegn Haukum

Ástæða þess að skýrsla kemur svona seint inn er að ég var að bíða og sjá hvernig staðan yrði í deildinni eftir þessa umferð. Nú er ljóst að við sitjum í 10. sæti eftir 8 leiki. Sjö mörk skoruð, níu fengin á okkur og 8 stig. Eftir jafnmarga leiki í fyrra vorum við með 11 stig og 9 mörk skoruð (þó skal fært til bókar að sex af þeim mörkum komu í sigrum gegn Tindastól og KV sem féllu um haustið) og sex á okkur.  Þessi samanburður segir okkur ekki mikið, liðið hefur spilað aggresífari bolta í sumar en nokkru sinni síðasta tímabil en okkur sárlega vantar framherja. Fufura er búinn að vera meiddur meira og minna í allt sumar, hann hefur aðeins náð að spila 191 mínútu og það skilaði 1 marki, að hann sé meiddur er ekki eitthvað sem ætti að koma á óvart. Hann spilaði 12 leiki í fyrra í deildinni sem þýðir að af 30 deildarleikjum er hann búinn að ná helming á tveimur árum.  Liðið er núna komið í fallbaráttu, næstu lið fyrir neðan okkur eru Grótta og BÍ/Bol. Við spilum á útivelli við Gróttu næst, þeir unnu sinn fyrsta leik í dag þegar þeir skelltu Þór fyrir norðan 0 – 1 og eru sýnd veiði en ekki gefin. Við þurfum ekki að fjölyrða um þann leik. HANN VERÐUR AÐ VINNAST!