Rjóma blíða en frekar svalt á JÁVERK vellinum og Þróttara konur mættar í heimsókn. Á völlinn voru mættir vel á 4 hundrað manns að sjá spennandi og fjörugan leik.
Byrjunarliðið hjá Selfoss hafði lekið í „fjölmiðla“ og engin breyting frá Stjörnuleiknum. Leikurinn var rólegur rétt í byrjun en síðan tóku heimastúlkur völdin og 4 mörk frá 10. til 29.mínútu settu gestina á hælana og úrslitin ráðin. Donna Kay skoraði fyrsta, sjálfsmark Þróttara annað, Gumma þriðja og Dagný Brynjars fjórða markið. Yfirburðirnir þó nokkrir en Þrótti vorkunn að spila gegn nokkrum vindi og sterkum andstæðing. Hinsvegar reyndu gestirnir alltaf að spila boltanum úr vörninni í stað kýlinga fram og greinilega nokkur bolti í þeim röndóttu en reynslan og trúin ekki næg. Selfoss átti fjöldan allan af sláar og stangarskotum í leiknum en inn vildi boltinn ekki og markvörður þeirra Mckenzie varði vel og alls ekki léleg í dag þó svo að hún hafi mátt gera betur í 2.marki Selfoss.
Í hálfleik kom inn Magdalena fyrir Evu á kantinn. Það breyttis í raun fátt þar sem Selfoss var betri aðilinn og sótti meira. En á 62.mínútu þegar Donna Kay var skipt út fyrir Katrínu Rúnars en við það fór langbesti leikmaður Selfoss á bekkinn og bitið í sóknarleiknum fjaraði aðeins út um tíma. Gumma fór einnig á bekkinn skömmu síðar og inn komu María Rós í hægri bakvörð en Anna María færð upp á kantinn. Þrótturum fór að ganga betur síðari hluta hálfleiksins og fengu 2 góð færi maður gegn Chante í markinu en okkar kona varði vel í bæði skiptin og bætti þar fyrir síðasta leik. Það var því aðeins gegn gangi leiksins, á þeim tíma, að Erna Guðjóns smellti einum í sammarann af 25 metrunum og kláraði stærsta sigur Selfoss í efstu deild hingað til. Viðeigandi að klára með stæl en fleiri góð færi komu eftir þetta mark Ernu en inn vildi knötturinn ekki. 5-0 ekki of stórt miðað við gang leiksins.
Vörnin og markmaðurinn voru góðar í kvöld og Summer einna öflugust, miðjan svona „iðanaðar“ frammistaða, kantarnir öflugri móti vindi í síðari og Donna frábær en óheppin á köflum að setja ekki fleiri mörk. Katrín Rúnars var sérstaklega óheppin í blálokin en sláin var klárlega með Þrótturum í liði þetta kvöldið.
3 stig í höfn og 5.sætið á markatölu en efri hluti deildarinnar er meistaralega jafn þar sem 1 stig og markatala skilur 5 efstu liðin af.
Næsti leikur í bikar á JÁVERK vellinum kl. 13:30 á laugardag gegn Völsung en næst leikur í deildinni nk. þriðjudag úti á móti Val sem situr í 4.sæti með 1 marki meira í + en Selfoss.
Áfram Selfoss / at