Selfoss tók á móti BÍ/Bolungarvík í fyrstu umferð 1.deildar karla og vann frækinn sigur 2-0 í leik sem einkenndist örlítið af árstímanum. Bæði lið reyndu að spila fótbola en það misfórst örlítið þegar þreyta fór að síga í leikmenn.
Leikurinn fór vel af stað og mikið jafnræði með liðum þrátt fyrir hættulegri færi selfyssinga. Fúfúra slapp tvisvar sinnum einn í gegn en var of lengi að athafna sig en einnig gerði markvörður BÍ vel og lokaði rammanum.
Undir lok fyrri hálfleiks fékk Selfoss tvö fín færi til að skora. Annars vegar fékk Fúfúra gott færi eftir undirbúning Einars Ottó, og hins vegar átti Einar Ottó skalla að marki eftir fína fyrirgjöf hjá nýjasta leikmanni Selfossliðsins Denis Sytnik. Allt kom fyrir ekki og staðan 0-0 í hálfleik þó að okkar menn hefðu átt forystuna skilið.
Seinni hálfleikur var búinn að malla í nokkrar mínútur þegar Selfyssingar smelltu inn einu marki. Það var rétt nýbúið að ræða í stúkunni markavandræði liðsins í fyrra og nú á undirbúningstímabilinu þegar Þorsteinn setur sleggju af 20 metra færi eftir að boltinn var lagður fyrir hann beint úr aukaspyrnu. Látum liggja milli hluta að boltinn hafi haft viðkomu í varnarmanni, hann hefði örugglega endað í netinu hvort eð var.

Eftir fyrsta markið tók við miðjumoð og barátta, enda ekki við öðru að búast þar sem Vestfirðingar leggja ekki árar í bát. Þeir hertu á og fyrir vikið datt mest fínt spil niður á þessum kafla. Það endaði hins vegar á því að Selfyssingar unnu boltann í kringum miðjuna, Einar Ottó potaði boltanum frá Ísfirðingi á urrandi ferði, Sytnik tók við og framlengdi á Fúfúra sem átti gott hlaup inn í vítateiginn hægra meginn og skaut í fyrstu snertingu beinustu leið í fjærhornið. Óverjandi. Það var lán í óláni fyrir BÍ/Bol. að þeirra maður slapp við spjald eftir brot á Einari Ottó, enda á gulu spjaldi og átti rautt næsta víst.
Eftirleikurinn var að mestu auðveldur fyrir Selfoss þar sem hvorugt lið gerði sig sérstaklega líklegt til að skora. Baráttan var hins vegar í algleymingi og Vestfirðingar gáfust ekki upp frekar en áður. Því fór leikurinn meira fram í loftinu heldur en fyrr, og lítil hætta skapaðist. Jordan komst þó einn í gegn undir lokin en færið fór forgörðum.
Flott byrjun á tímabilinu hjá Selfossliðinu, 3 stig í hús og markinu haldið hreinu. Margir leikmenn Selfoss áttu fínan leik. Þorsteinn var ferskur bæði í vörn og sókn og er hættulegur í föstum leikatriðum. Fúfúra hefur unnið mjög á eftir meiðslatímabilið í fyrra og virkar sprækur og duglegur, þó hann vilji eflaust nýta færin sín betur en í dag. Einar Ottó var eins og venjulega skelmir fyrir andstæðingana. Vörnin virkaði mjög traust og Luka var duglegur í að vernda hana. En að öðrum ólöstuðum var það Maniche sem var maður leiksins, með miklum fjölda af unnum boltum, hörku í návígjum og skallaboltum, öruggum sendingum og miklum drifkrafti.
Vonandi er þetta það sem koma skal í sumar. Næsti leikur er við HK á heimavelli.
Áfram Selfoss!